Vottanir og merkingar
Þú getur aukið efnalæsi þitt með því að þekkja merkin sem koma fram á vörunum. Þannig getur þú valið vörur sem eru framleiddar undir strangari skilyrðum, innihalda minna af skaðlegum efnum og eru betri valkostur fyrir þig og þína, sem og umhverfið!
Umhverfismerki
Hin áreiðanlegu og altæku umhverfismerki eru ekki svo afskaplega mörg og því ætti hver og einn að geta lagt nokkur þeirra á minnið. Merkin eru meðal þeirra sem talin eru í hæsta gæðaflokki merkja og geta því neytendur treyst því að þegar þeir kaupa vöru eða þjónustu sem merkt er Svaninum, Evrópublóminu eða öðrum sambærilegum merkjum þá séu þeir að velja það best fyrir umhverfi og heilsu. Athugið þó að þessi merki tákna ekki að varan sé lífræn, sjá nánar um lífrænar vottanir.
Lífræn ræktun
Merki um lífræna ræktun eru til marks um að við framleiðslu hráefna í tiltekna vöru hefur alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun verið fylgt. Ef merki um lífræna ræktun er á er á brauðtegund þá segir það sem sagt ekki til um það hvernig brauðið var bakað eða í hvernig umbúðum það er heldur er þá eingöngu verið að vísa til þess að ákveðin skilyrði voru uppfyllt þegar hráefnin í brauðinu voru ræktuð.